Erlent

Banna áfengi og klám á svæðum frumbyggja

Stjórnvöld í Ástralíu hafa ákveðið að banna áfengi og klám á frumbyggjasvæðum í landinu í að minnsta kosti sex mánuði til þess að reyna að koma í veg fyrir misnotkun á börnum. Ný skýrsla sem kom út í síðustu viku benti á að misnotkun á börnum væri mjög útbreidd á meðal frumbyggja. Hún kenndi mikilli áfengisneyslu og fátækt um ástandið.

Á meðal breytinga sem stjórnvöld ætla að gera er að tengja bætur við skólagöngu barna til þess að tryggja menntun þeirra. Nýju lögin eiga einnig að tryggja að börnin fái föt og almennilega næringu. Þá verða öll börn á svæðum frumbyggja skoðuð af læknum á næstunni.

Forsætisráðherra Ástralíu, John Howard, sagði að stjórnvöld myndu taka völdin á svæðum frumbyggja næstu fimm árin til þess að tryggja að farið yrði að lögunum. Undanfarin tíu ár hafa svæði frumbyggja fengið að stjórna sér að mestu sjálf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×