Erlent

Fjöldi flóttamanna eykst í fyrsta sinn í fimm ár

Jónas Haraldsson skrifar
Börn frá Súdan hvíla sig í skýli fyrir flóttamenn við landamærin við Chad.
Börn frá Súdan hvíla sig í skýli fyrir flóttamenn við landamærin við Chad. MYND/AFP
Fjöldi flóttamanna um allan heim hefur aukist í fyrsta sinn í fimm ár. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna.

Talið er að rekja megi þessa aukningu til flóttamannastraums frá Írak en fjöldi flóttamanna þaðan jókst um 14 prósent. Alls eru þeir um tíu milljónir sem þurft hafa að flýja land sitt vegna átaka. Þá hafa nærri þrettán milljónir þurft að flýja heimili sín en búa enn innan landamæra ríkja sinna.

Fyrir utan átökin í Írak, þá hafa bardagar í Líbanon, Austur-Tímor, Súdan og Sri Lanka átt sinn þátt í aukningunni. Flóttamenn frá Palestínu, sem hafa þurft að flytja sig um set vegna átaka við Ísrael, eru ekki taldir með í þessum tölum. Flestir flóttamenn koma frá Afganistan, eða um tvær komma ein milljón, og næstflestir frá Írak, eða um ein og hálf milljón. Í ríkjum Mið-Afríku eru síðan tæpar tvær milljónir flóttamanna.

Formaður Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, sagði samtök sín þurfa að leggja hart að sér til þess að snúa þessari þróun við. Engu að síður sagði hann samtökin oft standa frammi fyrir hindrunum stjórnvalda og nefndi því til stuðnings ástandið í Darfúr. Stjórnvöld í Súdan hafa lengi vel neitað hjálparsamtökum um starfsleyfi í Darfúrhéraði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×