Erlent

Sexburamóðirin á batavegi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Móðir sexbura sem fæddust á mánudag í Arisona í Bandaríkjunum varð fyrir hjartabilun eftir fæðinguna, en er nú á batavegi. Faðir barnanna segir hamingjuna ólýsanlega, en börnin eru komin úr öndunarvélum.

Sexburarnir fæddust á Banner Good Smaritan sjúkrahúsinu í Phoenix Arisona. Þeir voru teknir með keisaraskurði tíu vikum fyrir tímann og vógu frá tæpum fjórum mörkum til rúmlega fimm marka. Foreldrarnir voru tárvotir þegar læknar sýndu þeim börnin, eitt og eitt í einu, þrjár dætur og þrjá syni. Börnin geta nú andað sjálf en eru í hitakassa eins og vani er með slíka fyrirbura. Móðir barnanna, Jenny Masche fékk hjartabilun eftir fæðinguna en fór af gjörgæslu í dag. John Elliott læknir sagði álagið hafa verið mikið og hún hefði misst töluvert blóð.

Þetta eru fyrstu börn foreldranna, en konan hafði í tvígang misst fóstur. Í þetta sinn notuðust hjónin við tæknifrjóvgun og hormónalyf með þessum árangri. Faðir sexburanna var áhyggjufullur af heilsu konu sinnar, en himinlifandi yfir fæðingu barnanna.

Þetta var önnur sexburafæðingin í Bandaríkjunum á tíu klukkutímum, en fyrri fjölburarnir fæddust í Minnesota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×