Innlent

Valgerður í varaformanns- embættið

Guðjón Helgason skrifar

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, sækist eftir embætti varaformanns Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi í næsta mánuði. Hvorki Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, eða Magnús Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, sækjast eftir embættinu. Valgerður segir Framsóknarflokkinn verða málefnalegan í stjórnarandstöðu sinni.

Valgerður segir útkomuna í nýjafstöðum þingkosningum hafa verið Framsóknarflokknum óhagstæð. Það sé þó að baki og flokkurinn horfi nú fram á veginn. Jón Sigurðsson sagði af sér sem formaður flokksins á miðvikudaginn og Guðni Ágústsson, sem þá var varaformaður, tók við af honum.

Valgerður segist ekki vita til þess að nokkur annar ætli að bjóða sig fram til embættisins. Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hefur verið orðaður við embættið en á vefsíðu sinni segist hann ekki sækjast eftir því og lýsir stuðningi við Valgerði. Magnús Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, ljáir ekki máls á því að bjóða sig fram en útilokar það ekki í framtíðinni.

Valgerður segist hlakka til að takast á við aukna ábyrgð innan Framsóknarflokksins verði hún kjörin. Mikilvægt verði að veita aðhald í stjórnarandstöðu og full þörf verði á því nú. Hún segir Framsóknarflokkinn starfa málefnalega en það hafi oft skort á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×