Erlent

Kenna stuðningsmönnum Liverpool um vandræðin

Jónas Haraldsson skrifar
Á myndinni sést stuðningsmaður Liverpool með miða en óeirðalögreglan meinaði honum aðgöngu að leiknum.
Á myndinni sést stuðningsmaður Liverpool með miða en óeirðalögreglan meinaði honum aðgöngu að leiknum. MYND/AFP
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur kennt áhangendum Liverpool um vandræðin fyrir leikinn. Óeirðalögregla í Aþenu notaði táragas og kylfur til þess að hafa stjórn á aðdáendunum þegar þeim var sagt að snúa heim á leið þar sem leikvangurinn væri fullur.

Talsmaður UEFA, William Gaillard, sagði „Hegðun stuðningsmanna Liverpool er það sem olli vandræðum fyrir leikinn." Breska sendiráðið í Aþenu ætlar sér að taka málið upp.

Leikurinn endaði 2 - 1 fyrir AC Milan en margir áhangendur Liverpool komust ekki á leikinn þrátt fyrir að vera með miða. Ólæti brutust út stuttu fyrir leikinn þegar stuðningsmönnum var haldið aftur vegna troðnings. Lögregla sagði þeim sem voru á leið í gegnum lokahliðið að hægja á sér eða jafnvel stoppa alveg. Óeirðalögreglan myndaði síðan hring í kringum svæðið til þess að koma í veg fyrir að fleiri kæmust í raðirnar. Síðan var þeim sem stóðu fyrir utan sagt að þeir kæmust ekki inn á leikinn, þrátt fyrir að vera með miða, þar sem leikvangurinn væri fullur. Þá höfðu víst fjölmargir komist inn á völlinn án þess að hafa miða eða vera með falsaða miða undir höndum.

Bretar kenna hins vegar UEFA um fyrir að hafa valið svo lítinn völl og úthlutað áhangendum liðanna svo lítið magn af miðum. Einnig var talað um að lítið eftirlit hefði verið við innganginn á leikvanginn.

Gaillard sagði hins vegar að ekkert hefði verið um vandræði hjá Milan stuðningsmönnunum og að það sýndi að vandræðin hefðu verið vegna hegðunar áhangenda Liverpool. Sagði hann þó langflesta hafa hegðað sér almennilega en þurft að líða fyrir hegðun örfárra einstaklinga og það væri miður. Hann neitaði því hins vegar alfarið að UEFA bæri nokkra ábyrgð á því sem úrskeiðis fór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×