Innlent

Viðskiptaráðuneytið spennandi

Björgvin G. Sigurðsson nýr viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar segir viðskiptaráðuneytið spennandi ráðuneyti og mörg stór verkefni framundan á þeim vettvangi. Hann lýsti ánægju sinni með stjórnarsáttmálann, sáttmálinn væri metnaðarfullur og hefði fengið glymjandi fínar móttökur hjá flokksmönnum.

Aðspurður hvort hann hefði ekki rennt fremur hýru auga til samgönguráðuneytisins í ljósi áhuga hans á t.d. Suðurlandsveginum, sagðist Björgvin vera áhugamaður um margt og ekki síður neytendavernd og þá málaflokka sem lúta viðskiptaráðuneyti. Hann eigi sex börn og því snerti þau mál hann beint. Aðspurður hvort þjóðin muni finna fyrir breytingum nú þegar Samfylkingin er komin í ríkisstjórn sagði Björgvin að þjóðin myndi finna hressilega fyrir því á öllum sviðum samfélagsins að Samfylkingin væri komin í ríkisstjórn. Og hann óttast ekki að Samfylkingin hljóti sömu örlög og aðrir samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn að minnka í kosningum á eftir. Þvert á móti myndi Samfylkingin eflast við þessi sögulegu tímamót, sagði Björgvin G. Sigurðsson, nýr viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×