Erlent

Vilja að herinn verndi hvalina

Jónas Haraldsson skrifar

Stjórnarandstæðingar í Ástralíu sögðu í nótt að ef þeir komist til valda muni þeir senda herskip á umdeild hafsvæði við Suðurskautslandið til þess að koma í veg fyrir að Japanir geti þar veitt hvali. Þeir segja allt of mikið hafa verið sagt í Alþjóðahvalveiðiráðinu og ekkert gert. Núna sé komið að því gera eitthvað í málinu.

Herskipin eiga að safna sönnunargögnum gegn Japönum sem síðan verða notuð til þess að höfða mál gegn þeim í Alþjóðadómstólnum í Haag.

Umhverfisráðherra Ástrala, Malcolm Turnbull, sagði að þó svo stjórnarandstaðan áliti svæðið ástralskt væri það ekki viðurkennt á alþjóðlegum vettvangi og því gætu Japanar sent herskip með hvalveiðiskipum sínum þeim til verndar.

Sérfræðingar á vettvangi alþjóðlegra laga minntu líka á að Suðurskautslandið væri afvopnunarsvæði og því gæti það haft afleiðingar á alþjóðavettvangi að senda þangað herskip, þó svo að það væri aðeins í eftirlitsskyni.

Kosningar verða í Ástralíu í nóvember næstkomandi. Flokkur stjórnarandstæðinga, undir forystu Kevin Rudd, hefur átt góðu fylgi að fagna í skoðanakönnunum. Talið er að hann eigi góðan möguleika á því að velta stjórn íhaldssamra úr sessi en hún hefur setið í undanfarin tíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×