Erlent

Dýr myndi James allur

Óli Tynes skrifar
Hinn dýri gírhnúður.
Hinn dýri gírhnúður.

Safnarar geta verið dálítið galnir. Til dæmis safnarinn sem borgaði rúmar fimm milljónir króna fyrir hnúðinn á gírstönginni úr Aston Martin bílnum sem James Bond ók í Goldfinger. Myndin var frumsýnd árið 1964. Þessi gírhnúður var þeim eiginleikum gæddur að ef toppurinn á honum var opnaður var takki undir sem var notaður til þess að skjóta farþegasætinu upp úr bílnum. Alveg eins og í orrustuflugvél.

James Bond öðru nafni Sean Connery, notaði einmitt takkann til þess að losa sig við einn af skúrkum hins gráðuga Goldfingers.

Hnúðurinn var seldur á uppboði hjá Bonhams í Lundúnum. Á hann hafði verið sett 175 þúsund króna lágmarksverð. En eins og ég sagði; safnarar geta verið dálítið galnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×