Erlent

Brown vill leiða ríkisstjórn

Guðjón Helgason skrifar

Gordon Brown, fjármálaráðherra í bresku ríkisstjórninni, hellti sér í morgun formlega í slaginn um leiðtogaembættið í Verkamannaflokknum. Talið er að hann eigi greiða leið í embættið og takið við forsætisráðuneytinu af Tony Blair í lok júní. Blair tilkynnti um afsögn sína í gær.

Það var á fundi með stuðningsmönnum í Lundúnum í dag sem Brown tilkynnti að hann ætlaði að sækjast eftir leiðtogasætinu og því að fá að leiða nýja ríkisstjórn. Þessi yfirlýsing kom engum á óvart enda vitað að Brown ætlaði sér að krækja í embættið á eftir Blair. Sagan segir að þeir hafi í raun samið um það þegar John Smith, þáverandi leiðtogi Verkamannaflokksins, féll skyndilega frá árið 1994. Þessu hafa þeir þó báðir neitað. Blair lýsti í morgun yfir stuðningi við Brown sem boðaði þá til framboðsfundar. Hann lofsögn fráfarandi forsætisráðherra en sagðist ætla að innleiða nýja stjórnarhætti.

Verkamannaflokkinn hefði á liðnum áratug byggt upp sanngjarnara samfélag en gera þyrfti betur. Hann ætlaði að styrkja efnahag landsins enn frekar, eyða fátækt meðal barna og finna leiðir til þess að takast á við loftlagsbreytingar í heiminum. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á staðfestu í baráttunni við hryðjuverk. Hann sagði fyrsta verk sitt í embætti þó verða að takast á við erfið verkefni í heilbrigðisþjónustunni.

Talið er að Brown eigi auðvelda leið í leiðtogaembættið og Downing-stræti 10. Hann bauð þó hverjum sem væri að takast á við sig um leiðtogahlutverkið. Ekki er þó búist við að þungaviktarmenn bjóði sig fram gegn honum. Tveir minni spámenn á vinstrivæng flokksins leita þó stuðnings fyrir framboð sín en hafa samið um að sá sem afli fleiri fylgismanna um helgina haldi áfram en hinn víki. Val á formanni er sjö vikna ferli sem lýkur í lok júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×