Erlent

Franskir framámenn kátir við kjötkatlana

Óli Tynes skrifar
Nicolas Sarkozy nýkjörinn forseti Frakklands.
Nicolas Sarkozy nýkjörinn forseti Frakklands.

Franska þjóðin virðist ekkert kippa sér upp við það að nýkjörinn forseti hennar skuli nú lifa í vellystingum pragtuglega á risastórri snekkju á Miðjarðarhafi. Snekkjan er í eigu auðkýfings sem er persónulegur vinur Nikulásar Sarkozys. Forsetinn pakkaði niður og flaug með einkaþotu til Möltu innan við 24 klukkustundum eftir að hann sigraði í forsetakosningunum.

Vinstri menn og aðrir andstæðingar Sarkozys ráku upp ramakvein. Einnig fjölmiðlar sem reiknuðu út í skyndi að það myndi kosta 17 milljónir króna á viku að leigja dolluna. Kjósendum virðist hinsvegar standa á sama. Um 58 prósent þeirra sáu ekkert ahugavert við það að Sarkozy tæki sér frí með þessum hætti eftir stranga kosningabaráttu.

Frakkar eru líka vanir því að forsetar þeirra hafi það gott. Í sinni kosningabaráttu á sínum tíma sagði Jacques Chiraq að hann myndi vera hófsamur forseti. Reyndin hefur orðið sú að hann hefur eytt yfir tuttugu milljónum króna á ári, bara í dýr vín.

Hann fjölgaði líka mjög í starfsliði foretans. Eiginkona hans hefur til dæmis tuttugu og einn starfsmann bara fyrir sig. Þar á meðal eru sex ritarar og tveir einkabílstjórar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×