Erlent

Eldar geysa undan ströndum Kaliforníu

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Santa Catalina eyja er rétt undan Kaliforníuströnd.
Santa Catalina eyja er rétt undan Kaliforníuströnd. MYND/Google Maps

Mikill eldur varð þó nokkrum heimilum að bráð á Santa Catalina eyju í Kyrrahafi rétt utan við Los Angeles í nótt. Íbúum 12 hundruð heimila var fyrirskipað að yfirgefa þau og hundruðir manna bíða nú eftir ferju til meginlandsins. Herinn sendi tólf slökkviliðsbíla með svifnökkvum rúmlega fjörtíu km sjóleiðina frá ströndum Kaliforníu.

Slökkviliðsmenn berjast við eldinn sem er á borgarmörkum Avalon. Við höfn borgarinnar þurftu margir þeirra sem bíða ferjunnar að bregða klútum fyrir vit sín til að verjast öskufallinu.

Eldurinn braust út seint í gærkvöldi og breiddist út um 17 ferkílómetra svæði á eynni við Avalon. Slökkvilið Los Angeles sýslu fluttu fjölda slökkviliðsmanna í eynna með herþyrlum.

Slökkviliðsmennirnir eru í varnarstöðu, er haft eftir slökkviliðsstjóra Avalon á CNN. Þeir hafa tekið sér stöðu við borgarmörkin þar sem þeir reyna að hefta útbreiðslu eldsins.

Verslunarbygging og nokkur vöruhús brunnu og rafmagnslaust varð á 175 heimilum þegar rafmagnslínur brunnu.

Eldar geysa nú á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum, í Minnesota, Georgíu og Flórída.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×