Erlent

Merki ekki fengið að láni

Guðjón Helgason skrifar

Höfundur merkis Íslandshreyfingarinnar segir einskæra tilviljun að það sé sláandi líkt merki bandaríska hugbúnaðarfyrirtækisins ESS. Unnið hafi verið með grunnliti sjálfbærrar þróunar og hringinn sem frumform við gerð þess. Merki ESS hafi ekki verið fengið að láni við hönnunina.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld var rætt um það hversu lík þau þættu merki Íslandshreyfingarinnar annars vegar og bandaríska hugbúnaðarfyrirtækisins ESS hins vegar. Prófessor í grafískri hönnun sagði augljóslega um eftirlíkingu að ræða.

Þegar merki ESS er skoðað er ákveðin hugmynd að baki litum merkisins - gulur í miðjunni táknar afköst, grænn umhverfismál, blár heilbrigðis- og öryggismál og rauður áfallastjórnun.

Bjarni Helgason, höfundur merkisins skipar 14. sæti á lista Íslandshreyfingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hann segir að samkvæmt ósk hreyfingarinnar hafi merkið átt að byggja á þríþættu módeli sjálfbærrar þróunar sem sýndi jafnvægi milli þriggja meginstoða samfélagsins. Græn litur tákni umhverfið, blár efnahag og rauður velferð.

Bjarni segist hafa unnið úr fjölda hugmynda út frá þessu og lagt fyrir Íslandshreyfinguna. Ein hugmynd hafi verið valin úr en hún hafi þótt sýna best það sem framboðið stæði fyrir. Hún hafi svo verið þróuð frekar og þá komið fram merkið sem nú sé notað.

Bjarni segir það svo einskæra tilviljun að merkið svipi til vörumerkis ESS. Hann segir að honum hafi verið bent það nokkru eftir að merki Íslandshreyfingarinnar var notað fyrst.

Bjarni á ekki von á að skipt verði um merki hreyfingarinnar nú. Fjórir dagar séu til kosninga og í nógu öðru að snúast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×