Innlent

Götumyndin verður aldrei eins, segir borgarstjóri

Götumyndin verður aldrei eins í Austurstræti eftir brunann í miðborginni, segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri í blaðagrein í dag. Áður hafði hann lagt áherslu á að halda í þá sögufrægu götumynd sem varð eldi að bráð um miðjan apríl.

Daginn sem tvö sögufræg hús brunnu í miðborginni, þann átjánda apríl síðastliðinn, var borgarstjórinn ómyrkur í máli um uppbyggingu á reitnum: "Ég vil sjá uppbyggingu á þessu svæði í þeim anda sem að hérna þessi hús hafa sýnt okkur, endurgera þau ef nokkur kostur er eða hérna byggja í svipuðum stíl eins og til dæmis gert var í Aðalstræti núna nýlega... En ég legg áherslu á það já að við höldum í þessa sögufrægu mynd sem að hér hefur svo lengi blasað við."

Margir tóku í sama streng, meðal annars formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. Nú kveður við annan tón í grein sem borgarstjórinn skrifar í Morgunblaðið í dag til að kynna málþing um framtíð brunareitsins. Þingðið verður haldið í Listasafni Reykjavíkur á morgun milli klukkan fjögur og sex. Í greininni skrifar borgarstjóri:

"Skemmst er frá því að segja að götumyndin verður aldrei eins. Nýtt hús á reit Austurstrætis 22 verður aldrei sama húsið og hýsti Jörund hundadagakonung, Haraldarbúð, Karnabæ eða Pravda.

Nú er mikilvægt að við beinum sjónum okkar að þeim tækifærum sem felast í væntanlegri uppbyggingu til styrkingar atvinnulífs og mannlífs í borginni. Hvað er hægt að gera til að stuðla að því að hjarta Reykjavíkur tifi jafnvel af enn meiri krafti eftir brunann en fyrir hann?"

Ekki náðist í borgarstjóra í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×