Körfubolti

Tekst Golden State hið ómögulega í kvöld?

Dirk Nowitzki og félagar geta komist í sögubækurnar á versta mögulega hátt með tapi í nótt
Dirk Nowitzki og félagar geta komist í sögubækurnar á versta mögulega hátt með tapi í nótt NordicPhotos/GettyImages

Þeir sem hafa aðgang að NBA TV sjónvarpsstöðinni geta í kvöld orðið vitni að einhverjum óvæntustu úrslitum í sögu NBA deildarinnar ef Golden State Warriors tekst að leggja Dallas Mavericks að velli í fimmta leik liðanna klukkan hálf tvö.

Öskubuskulið Golden State, sem slefaði inn í áttunda sætið í úrslitakeppninni á síðustu dögum deildarkeppninnar hefur öllum að óvörum komist 3-1 yfir í einvíginu við besta lið deildarinnar í vetur. Dallas vann 67 leiki í deildarkeppninni sem er sjötti besti árangur allra tíma í NBA. Það hefur ekki komið í veg fyrir að Golden State sé búið að vera betri aðilinn í einvíginu og takist liðinu að vinna í Dallas í nótt - verða það óvæntustu úrslit í sögu fyrstu umferðar úrslitakeppninnar.

Dallas-liðið er greinilega farið að láta mótlætið setjast á sálina og ekki síst í ljósi yfirlýsingar Dirk Nowitzki fyrir síðasta leik, þar sem hann sagði að einvígið væri búið ef Dallas næði ekki að vinna fjórða leikinn. Þjálfarinn Avery Johnson er ekki hrifinn af yfirlýsingum Þjóðverjans.

"Ég er orðinn þreyttur á að heyra að Golden State sé búið að taka Dirk út úr sínum leik og hvernig hann eigi að skorta sjálfstraust. Ég sjálfur var ekki besti leikmaður í heimi -  en það var alveg sama hvað gekk á - þú náðir ekki að taka af mér sjálfstraustið. Ég verð mjög vonsvikinn ef ég sé ekki sjálfstraustið geisla af mínum mönnum í upphituninni fyrir leikinn, en við munum finna leið til að vinna þennan leik," sagði Avery Johnson.

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×