Körfubolti

„Leikurinn þróaðist eins og við hefðum viljað að hann þróist“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Halldór Garðar var að spila gegn uppeldisfélagi sínu í kvöld. Mynd úr leik gegn Val fyrr á tímabilinu.
Halldór Garðar var að spila gegn uppeldisfélagi sínu í kvöld. Mynd úr leik gegn Val fyrr á tímabilinu. vísir / jón gautur

Keflavík tók á móti Þór Þorlákshöfn í Bónus deild karla í kvöld þegar lokaumferðin fyrir jólafrí fór fram. Keflavík sýndi mátt sinn og megin og fór með sannfærandi nítján stiga sigur 105-86.

„Við ætluðum að fara á góðu nótunum inn í frí og mér fannst við gera það. Þetta var bara flottur leikur frá A-Ö frá okkur.“ Sagði Halldór Garðar Hermannsson fyrirliði Keflavíkur eftir sigurinn í kvöld.

Það var mikið skorað og þá sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem Keflavík skoraði 61 stig.

„Varnirnar voru kannski ekki upp á sitt besta. Við viljum spila hratt og flæða mikið. Leikurinn þróaðist svona eins og við hefðum viljað að hann þróist.“

Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur hefur oft komið inn á það í viðtölum fyrir leiki að hann vonast til að sjá sitt lið skora í kringum hundrað stigin sem varð raunin í kvöld.

„Sóknarlega vorum við að gera mjög vel hérna. Þeir ná svo að minnka þetta niður í fimm, sex og þá fannst mér vörnin aðeins stíga upp hjá okkur. Til þess að skora hundrað stig þurfum við að fá auðveldar körfur og við þurfum að treysta á vörnina og á þessum tímapunkti þá gerðum við það klárlega.“

Það var ákveðin vendipunktur í leiknum þegar mómentið virðist vera að færast nær gestunum í þriðja leikhluta en Keflavík stelur boltanum og treður á honum á hinum endanum. Það virtist kveikja í heimamönnum aftur.

„Mér fannst það. Það er eiginlega bara hárrétt. Það var einmitt það sem við þurftum. Eitthvað „varnarplay“ sem að leiðir af sér auðvelda körfu og kveikir aðeins í kofanum.“

Halldór Garðar var að spila gegn uppeldisfélaginu sínu og virðist líka það ágætlega en hann endaði stigahæstur í liði Keflavíkur með 19 stig.

„Það er alltaf jafn gaman. Ég var ekki búin að vinna þá síðan ég fór í Keflavík þannig það var komin tími á að vinna þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×