Upp­gjörið: Valur - Þór Ak. 102-75 | Vals­konur komnar í draumastöðu

Kári Mímisson skrifar
Ásta Júlía Grímsdóttir og liðsfélagar hennar höfðu ástæðu til að fagna að Hlíðarenda í dag.
Ásta Júlía Grímsdóttir og liðsfélagar hennar höfðu ástæðu til að fagna að Hlíðarenda í dag. Vísir/Guðmundur

Valskonur eru komnar í 2-0 í einvíginu gegn Þór Akureyri í 8-liða úrslitum Bónus-deildar kvenna. Valur vann öruggan sigur að Hlíðarenda í dag og getur tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri á Akureyri á miðvikudag.

Fyrir leikinn var það ljóst að þær Esther Marjolein Fokke og Natalia Lalic yrðu ekki með Þór í dag frekar en í leik eitt fyrir norðan fyrr í vikunni. Þessi missir er heldur betur skarð fyrir skildi og það mátt sjá það strax á upphafsmínútunum að lið Þórs væri heldur betur laskað.

Það var hart barist að Hlíðarenda í dag.Vísir/Guðmundur

Valskonur byrjuðu leikinn af krafti og gáfu heldur betur tóninn fyrir því sem koma skyldi.

Liðið skoraði fyrstu sjö stig leiksins og gaf þá forystu aldrei frá sér. Því miður fyrir gestina frá Akureyri þá sáu þær hreinlega aldrei til sólar hér á Hlíðarenda í dag. Hægt og rólega juku heimakonur forystuna og leiddu með 18 stigum í hálfleik, 51-33. 

Alyssa Cerino og Maddie Sutton sjá hér greinilega eitthvað áhugavert.Vísir/Guðmundur

Síðari hálfleikur spilaðist nánast alveg eins og sá fyrri. Alveg sama hvað norðanstúlkur reyndu og reyndu þá átti Valur svar við öllu því sem þær köstuðu í þær. Í upphafi fjórða leikhluta náðu gestirnir þó ágætis kafla þar sem þeim tókst aðeins að saxa á forskot Vals en það var bara í örskamma stund og Valskonur ekki lengi að finna gírinn aftur og gáfu ef eitthvað var bara í. 

Lokatölur 102-75 fyrir Val eins og áður segir.

Atvik leiksins

Daníel Andri, þjálfari Þórs, sagði eftir síðasta leik að það myndi sjást á leikskýrslu þessa leiks hvort Esther Fokke og Natalia Lalic yrðu með. Það var því ansi leiðinlegt þegar skýrslan kom að sjá að þessar tvær sterku körfuboltakonur yrðu ekki með. 

Dagbjörg Dögg Karlsdóttir með boltann í leiknum.Vísir/Guðmundur

Leikurinn var annars heldur tíðindalítill en það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda.

Stjörnur og skúrkar

Í liði heimakvenna var Jiselle Thomas atkvæðamest með 22 stig, 7 stoðsendingar og 4 fráköst. Þá átti Ásta Júlía Grímsdóttir frábæran leik en Ásta var með 19 stig, 5 stoðsendingar og 6 fráköst.

Maddie Sutton með boltann.Vísir/Guðmundur

Hjá Þór var Eva Wium Elíasdóttir stigahæst með 22 stig ásamt því að gefa 4 stoðsendingar og rífa niður 5 fráköst.

Dómararnir

Bara virkilega góðir í dag allir þrír. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst þeim samt að gefa Jamil tæknivillu þegar Valur leiddi með 20 stigum sem er ákveðið afrek.

Ásta Júlía Grímsdóttir skorar hér tvvö af sínum stigum.Vísir/Guðmundur

Stemning og umgjörð

Benni Bongó barði trommurnar allan leikinn og þá var ágætis mæting í stúkuna en maður vill alltaf meira, sérstaklega í úrslitakeppninni.

Viðtal

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira