Erlent

Lífslíkur örvhentra kvenna lægri

Vinstri hendur gætu hugsanlega verið hættulegar.
Vinstri hendur gætu hugsanlega verið hættulegar. MYND/Vísir

Ný rannsókn gefur til kynna að líklegra sé að örvhentar konur láti lífið fyrr en rétthentar konur, sérstaklega úr krabbameini eða æðasjúkdómum. Vísindamennirnir benda á hugsanlega sé um að ræða tilviljun og að sannanirnar séu langt í frá fullnægjandi. Engu að síður benda margar rannsóknir til tengsla á milli þess að vera örvhentur og að vera með hina ýmsu kvilla sem síðan lækka lífslíkur.

Vísindamennirnir fylgdust með 12.178 hollenskum konum í 13 ár og létu 252 þeirra lífið á tímabilinu. Þegar hinir ýmsu þættir höfðu verið útilokaðir kom í ljós að örvhentar konur voru 40 prósent líklegri til þess að láta lífið af hvaða orsök sem var. 70 prósent líklegra var að þær létu lífið úr krabbameini og 30 prósent líklegra að þær létu lífið úr hvers konar æðasjúkdómum. Þær voru einnig tvisvar sinnum líklegri til þess að láta lífið úr brjóstakrabbameini.

Ekki er vitað hvers vegna þessi tengsl virðast vera til staðar. Dr. Ramadhani, sá sem sá um rannsóknina, telur að umhverfið sem og erfðaþættir hafi þar einhver áhrif. Talið er að um einn af hverjum tíu sé örvhentur.

Dr. Olga Basso, sem skrifaði um og gagnrýndi rannsóknina og er auk þess örvhent, segist efast stórlega um niðurstöður hennar. „Eftir að hafa tekist að komast hjá ýmsum sjúkdómum," sagði hún „efast ég um að vinstri höndin á mér togi mig í gröfina." Hún sagði einnig að margt vantaði upp á rannsóknir sem þessar til þess að þær væru trúverðugar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×