Erlent

Búist við óróleika í Nígeríu á morgun

Frá kosningunum þann 21. apríl síðastliðinn.
Frá kosningunum þann 21. apríl síðastliðinn. MYND/AFP

Borgaraleg samtök í Nígeríu óttast að yfirvöld eigi eftir að bregðast harkalega við fyrirhuguðum mótmælum á morgun. Samtökin, ásamt verkalýðsfélögum og stjórnarandstöðuflokkum hafa skipulagt mótmæli um alla Nígeríu á morgun vegna úrslita forsetakosninganna sem fram fóru þar í landi þann 21. apríl síðastliðinn.

Í þeim vann stjórnarflokkurinn stórsigur og kosningaeftirlitsmenn hafa sagt að verulega hafi vantað upp á til þess að kosningarnar gætu talist frjálsar og lýðræðislegar. Stjórnvöld segja hins vegar að þeir séu að undirbúa jarðveginn fyrir valdarán.

Forseti Nígeríu, Olesegun Obasanjo, hefur biðlað til stjórnarandstöðunnar til þess að leita réttar síns fyrir dómstólum. Hún hefur einnig kvartað undan því að leyniþjónusta ríkisins, sem svarar til öryggisráðsins sem heyrir beint undir forsetann, hafi haft í hótunum við sig. Þá er talið að einn stjórnarandstöðuþingmaður hafi þegar verið handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×