Erlent

Loftárás á Darfur-hérað

Guðjón Helgason skrifar

Talsmaður uppreisnarmanna í Darfur-héraði í Súdan segir stjórnarherinn hafa staðið að baki loftárás á búðir uppreinsnarmanna í dag. Þar var áætlað að halda viðræður um ástandið í landinu. Fjölmargir særðust í árásinni.

Talsmaður Súdönsku frelsishreyfingarinnar, sem samdi ekki um frið við stjórnvöld í landinu, segir að liðsmenn hópsins hafi skotið niður einhverjar þyrlur hersins.

Talsmaður súdanska hersins sagði í yfirlýsingu að engin árás hefði verið gerð en ein þyrla hersins hefði horfið þar sem hún var á eftirlitsflugi.

Nokkrir hópar skæruliða sömdu um frið við stjórnvöld fyrir tæpu ári en það hefur ekki bundið enda á skálmöld í landinu. Sameinuðu þjóðirnar segja um tvö hundruð þúsund manns hafa fallið í átökum síðan 2003 og tvær milljónir manna á vergangi.

Bretar og Bandaríkjamenn vilja að stjórnvöld í Súdan hleypi liði her- og lögreglumanna frá Afríkubandalaginu og Sameinuðu þjóðunum inn í landið og á átakasvæðin. Það lið telji rúmlega tuttugu þúsund liðsmenn. Stjórnvöld í Khartoum hafa aeðins samþykkt að 3.500 manna herlið frá SÞ og fimm þúsund manna herlið frá Afríkubandalaginu fái að fara inn í landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×