Erlent

Fjölmenn mótmæli í Istanbúl

Guðjón Helgason skrifar

Mörg þúsund Tyrkir komu saman til mótmælafundar í Istanbúl í morgun til að styðja við aðskilnað ríkis og trúarbragða í landinu. Deilt er um skipan forseta sem hefur haldið mikilli tryggð við rætur sínar í Íslam.

Abdullah Gul, utanríkisráðherra, er forsetaefni stjórnarflokks Tayyips Erdogans, forsætisráðherra, en flokkurinn er afar tengdur Íslam og höfðar mjög til trúrækina múslima. Þingið velur forseta og líklegt talið að Gul hreppi hnossið í atkvæðagreiðslu eftir helgi. Í atkvæðagreiðslu á föstudaginn fékk hann ekki 2/3 atkvæða þingmanna sem þarf. Verði kosið í þriðja sinn eftir helgi þarf Gul eins einfaldan meirihluta sem hann hefur.

Her landsins fylgist með kosningunni og óttast margir að herinn reyni að ræna völdum til að tryggja það að trú og stjórnmál blandist ekki um of saman. Ríkisstjórnin hefur brugðist harkalega við yfirlýsingu hersins og segir óeðlilegt að herforingjar láti slíkt frá sér. Herinn lúti stjórn forsætisráðherra og þurfi að fylgja stjórnarskrá og lögum. Gul lýsti því yfir í morgun að hann ætlaði ekki að draga framboð sitt til baka vegna deilnanna.

Stjórnarandstaðan í Tyrklandi tók ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu í þinginu og segir að þá hafi ekki nægilega marga þingmenn hafa tekið þátt og atkvæðagreiðslan því ógild. Þess vegna þurfi að rjúfa þing og boða til kosninga. Stjórnlagadómstóll í Tyrklandi tekur afstöðu til kröfu stjórnarandstöðunnar eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×