Erlent

Átök í Tallin

Guðjón Helgason skrifar

Allt logaði í óeirðum í Tallin höfuðborg Eistlands í gærkvöldi - annað kvöldið í röð. Deilt er um sovéskt minnismerki sem yfirvöld fjarlægðu úr höfuðborginni í gær en þar hefur það staðið í áratugi. Tíu mótmælendur særðust í átökum við lögreglu í gær og þrjú hundruð úr hópi þeirra voru handteknir.

Sú ákvörðun eistneskra stjórnvalda að fjarlægja minnismerki um afrek Rauða hersins í seinni heimsstyrjöldinni hefur vakið mikla reiði hjá þeim þriðjungi Eista sem eru af rússneskum uppruna. Aðrir Eistar telja minnismerkið minna á þá kúgun sem þjóðin hafi mátt þola á meðan Eistland var hluti Sovétríkjanna.

Friðsöm mótmæli í fyrrakvöld breyttust í óeirðir þar sem einn lét lífið, tugir særðust og þrjú hundruð voru handteknir. Kveikt var í verslunum og þær rændar og ruplaðar.

Í gærdag var svo minnismerkið fjarlægt og flutt á leynilegan stað. Um þúsund mótmælendur komu þá saman í miðborg Tallin og aftur kom til átaka. Tugir særðust þá og margir voru handteknir. Lögregla beitti táragasi og skaut gúmmíkúlum til að dreifa mannfjöldanum sem svaraði með eldsprengjum. Enn var rænt og ruplað í búðum.

Ró hafði færst yfir borgina í morgun en yfirvöld búa sig undir áframhaldandi átök í kvöld.

Rússar eru ævareiðir vegna aðgerða eistneskra yfirvalda. Eistar segjast vilja rannsaka líkamsleifar sem hafi hvílt undir minnismerkinu og færa það svo á annan stað. Líklegt er talið að það verði sett í kirkjugarð hersins í Tallin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×