Erlent

Viðskipti með demanta frá Líberíu leyfð

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna aflétti í dag sex ára banni á útflutning á líberískum demöntum. Banninu hafði verið ætlað að koma í veg fyrir viðskipti með svokallaða blóðdemanta en slík viðskipti fjármagna oftar en ekki stríðsherra í borgarastyrjöldum.

Samþykktin, sem allar þjóðirnar í öryggisráðinu komu að, kvað einnig á um að hún yrði endurskoðuð eftir 90 daga. Forseti öryggisráðsins, breski sendiherrann Emyr Jones Parry, skýrði frá þessu í kvöld.

Mikil umræða varð í alþjóðasamfélaginu vegna blóðdemanta vegna nýlegrar Hollywood-myndar, Blóðdemanturinn. Myndin átti að gerast í Afríkuríkinu Síerra Leóne á tímum borgarastyrjaldar. Rætt var um afleiðingar sölu þeirra á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en margar stofnanir sem börðust fyrir því að hefta viðskipti með slíka demanta sögðu að umræðan væri of seint á ferðinni. Nú væri lítið hlutfall demanta í umferð blóðdemantar eða minna en þrjú prósent demanta í heiminum. Þegar mest var, í upphafi tíunda áratugarins, er talið að um 15% demanta í umferð hafi verið blóðdemantar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×