Erlent

Varnarasamkomulag við Dani og Norðmenn í höfn

Samningar um varnarsamstarf Íslendinga við Dani og Norðmenn verða undirritaðir á fimmtudaginn á NATO fundi í Ósló. Ekki fæst gefið upp hvað felst í þeim fyrr en eftir undirritun. Samkvæmt norska blaðinu Aftonposten felur samkomulagið við Norðmenn það í sér að norski flughersinn sjái um eftirlit í lofthelgi Íslands á friðartímum.

Viðræður við Norðmenn og Dani um samstarf í varnarmálum á Norður-Atlantshafi hafa staðið síðan í fyrra. Norsk sendinefnd skoðaði varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli í desember og það hefur dönsk nefnd einnig gert. Íslendingar hafa einnig rætt við Breta og Kanadamenn um samstarf og Atlantshafsbandalagið sjálft boðað eftirlitsflug.

Fjallað er ítarlega um væntanlegt varnar- og öryggissamstarf Íslands og Noregs í norska dagblaðinu Aftenposten í dag en fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá samkomulaginu við Norðmenn í gær. Í Aftenposten í dag segir að Íslendingar hafi verið varnarlausir frá því að Bandaríkjamenn hafi lokað herstöð sinni á Miðnesheiði. Því hafi Íslendingar leitað til Norðmanna og Dana um samstarf í varnarmálum. Blaðið segir að samkvæmt fyrirhuguðu varnar- og öryggissamstarfi landanna muni norskar herþotur sjá um eftirlit í lofthelgi Íslands á friðartímum. Þoturnar muni gera út frá Keflavík en í þessu felist þó engin skuldbinding af hálfu Noregs ef til ófriðar kemur. Hægt sé að ímynda sér að norski herinn muni auknum mæli taka þátt í heræfingum hér á landi í samstarfi við aðrar þjóðir. Greinarhöfundur segir að með þessu framlagi sé Noregur að hjálpa Íslendingum að viðhalda sjálfstæði sínu.

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsríkjanna koma saman til óformlegs fundar í Ósló í Noregi á fimmtudag og föstudag til að ræða verkefni bandalagsins í Afganistan og Kósóvó. Á fimmtudeginum fundar Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, annars vegar með Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, og hins vegar með Per Stig Møller, utanríkisráðherra Dana, og verður þá gegnið frá samningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×