Erlent

Setti saman lista yfir fólk sem hann vildi drepa

Fjölskylda Seung-Hui Cho, mannsins sem banaði 32 samnemendum sínum og kennurum við Virginía Tech-háskólann í Blacksburg í byrjun vikunnar, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún kveðst miður sín yfir voðaverkunum. Svo virðist sem Seung-Hui hafi lengi áformað að myrða skólafélaga sína til að hefna fyrir einelti sem hann varð fyrir.

Eldri systir Seung-Hui Cho ritaði yfirlýsinguna fyrir hönd fjölskyldunnar þar sem segir að líf þeirra allra sé búið að vera samfelld martröð undanfarna daga enda. Öll séu þau sleginn miklum harmi vegna þessara voðaverka enda hafi þau ekki órað fyrir því að Seung væri fær um að fremja slík illvirki. Þetta eru fyrstu viðbrögð fjölskyldunnar um fjöldamorðin og að líkindum einnig þau síðustu því lögmaður hennar sagði í gær að hún mundi ekki tjá sig frekar um þetta hörmulega mál. Eftir því sem dagarnir líða verður myndin af manninum sem stóð á bak við þessa verstu skotárás í sögu Bandaríkjanna ljósari. Hann virðist hafa lent utangarðs nánast um leið og hann fluttist til Bandaríkjanna ásamt fjölskyldu sinni árið 1992 og því orðið skotspónn skólafélaga sinna.

Gamlir skólafélagar Seungs fullyrða að fyrir nokkrum árum hafi hann sett saman lista yfir fólk sem hann ætlaði að drepa fyrir að leggja sig í einelti. Hegðun hans er sögð hafa orðið stöðugt sérkennilegri með árunum og fyrir hálfu öðru ári var hann skyldaður til að gangast undir geðrannsókn sem þó virðist ekki hafa leitt neitt athugavert í ljós. Í dag dylst hins vegar engum hversu veikur Seung þegar hann framdi morðin 32.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×