Erlent

Fjölskyldan gjörsamlega miður sín

Fjölskylda Cho Seung-hui, mannsins sem banaði 32 samnemendum sínum og kennurum við Virginía Tech-háskólann í Blacksburg í byrjun vikunnar, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún kveðst miður sín yfir voðaverkum ástvinar síns.

Það var systir Cho Seung-hui, sem ritaði yfirlýsinguna fyrir hönd fjölskyldunnar. Þar segir að líf hennar sé búið að vera samfelld martröð undanfarna daga enda séu allir slegnir miklum harmi vegna þessara voðaverka Cho. Ekkert þeirra hafi nokkurn tímann órað fyrir því að Cho væri fær um að fremja slík illvirki. Í yfirlýsingunni segir að fjölskyldan biðji fyrir fórnarlömbunum og ættingjum þeirra sem ganga nú í gegnum svo mikla sorg. Þetta er í fyrsta sinn sem fjölskylda Cho tjáir sig um fjöldamorðin, og að líkindum einnig það síðasta því lögmaður hennar segir að hún muni ekki tjá sig frekar um þetta hörmulega mál. Nánustu ættingjar Cho dvelja nú á óþekktum stað undir vernd lögreglu. Rannsókn lögreglu á blóðbaðinu í Virgina Tech-háskólanum er enn í fullum gangi og vonast lögregla til að hafa einhverjar fréttir að færa í næstu viku. Minningarathafnir fóru víðs vegar fram í Bandaríkjunum í gær og verða fleiri slíkar samkomur haldnar um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×