Erlent

Kasparov settur í fjölmiðlabann

Óli Tynes skrifar
Garry Kasparov
Garry Kasparov

Fréttamenn við eina stærstu einkareknu útvarpsstöð Rússlands, sögðu í dag að þeim hafi verið skipað að hleypa ekki stjórnarandstæðingum í þætti sína og fréttir. Skipanirnar koma frá nýjum stjórnendum stöðvarinnar sem voru fengnir frá ríkisrekinni sjónvarpsstöð. Nær allir ljósvakamiðlar Rússland hafa lent undir stjórn húsbændanna í Kreml, síðan Vladimir Putin varð forseti fyrir sjö árum.

Starfsmenn Rússnesku fréttaþjónustunnar, sem hefur verið vinsælasta útvarpsstöð Rússlands, segja að hinir nýju yfirmenn hafi bannað beinar útsendingar frá mótmælum gegn Putin, um síðustu helgi. Jafnframt hafi þeim verið bannað að tala við Garry Kasparov, sem er einn leiðtogi andófsmannanna.

Þá hafi þeir verið hvattir til að fjölga viðtölum við þá sem styðja ríkisstjórnina. Einn hinna nýju stjórnenda neitaði því að stjórnarandstæðingar hefðu verið settir á svartan lista. Spurður sérstaklega um Kasparov, sagði hann að hann fengi að koma fram í útvarpi ef hann hætti þessum fjárans áróðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×