Erlent

Dýrt að kúga konur

Óli Tynes skrifar
Hagur Indverja myndi vænka ef konur fengju að vinna.
Hagur Indverja myndi vænka ef konur fengju að vinna.

Misrétti gagnvart konum kostar Asíu- og Kyrrahafsþjóðir um 80 milljarða dollara á ári, að mati Sameinuðu þjóðanna. Þetta fé tapast með því að takmarka aðgang kvenna að heilbrigðisþjónustu, skólum og atvinnutækifærum. Ef til dæmis indverskar konur kæmust út á vinnumarkaðinn í sama mæli og þær bandarísku, myndi það auka þjóðarframleiðsluna um meira en eitt prósent, eða 19 milljarða dollara.

Ein af helstu ástæðunum fyrir misrétti gagnvart konum er sú að þær eiga sér enga pólitíska fulltrúa sem tala þeirra máli. Þær fá ekki að taka þátt í ákvarðanatöku, hvort sem er heimafyrir eða úti í þjóðfélaginu. Jafnvel þótt um sé að ræða beina hagsmuni þeirra sjálfra.

Aðeins sjö lönd í þessum heimshluta hafa þing þar sem konur eru yfir tuttugu prósent þingmanna. Hæst er hlutfallið á Nýja Sjálandi, þar sem það er 28 prósent. Sameinuðu þjóðirnar leggja fram fjórar einfaldar tillögur til þess að bæta ástandið.

1. Ókeypis grunnmenntun í grennd við þorp á landsbyggðinni, og námsstyrki og salernisaðstöðu fyrir stúlkur. 2. Fullorðinsfræðslu fyrir konur. 3. Konur fái sömu heilbrigðisþjónustu og karlmenn. 4. Skólabörn fái ókeypis hádegisverð, og þungaðar konur næringarríkan matarpakka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×