Erlent

Forsætisráðherra Kína í opinbera heimsókn til Japans

Jónas Haraldsson skrifar
Wen Jiabao kom í morgun til Japan.
Wen Jiabao kom í morgun til Japan. MYND/AFP
Forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, fer til Japan í dag og er það fyrsta heimsókn kínversks forsætisráðherra til Japans í sjö ár. Heimsóknin er talin merki um að samskipti landanna tveggja séu farin að batna verulega.

Á undanförnum árum hafa samskipti landanna verið erfið. Ástæðan er ósætti um hvernig japanskir hermenn hegðuðu sér gagnvart Kínverjum á stríðstímum. Tíðar heimsóknir fyrrum forsætisráðherra Japans, Junichiro Koizumi, í helgiskrín fallinna hermanna, magnaði þær deilur. Kínverjar töldu að með heimsóknunum væri meðferð Japana á Kínverjum á stríðstímum hampað.

Samstarf landanna tveggja vegna kjarnorkudeilunnar við Norður-Kóreu hefur hins vegar bætt samskipti þeirra og hafa þau skipað nefnd til þess að fjalla um sameiginlega sögu þeirra.

Talið er að Jiabao og Shinzo Abe, japanski forsætisráðherrann, eigi eftir að ræða um samstarf á sviði orku- og umhverfismála ásamt því að takast á um umdeilt landsvæði þar sem talið er að olíu sé að finna. Einnig er búist við því að Japanir eigi eftir að spyrja Kínverja út í aukin hernaðarleg umsvif þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×