Sport

Fimmgangur Meistaradeildar VÍS á fimmtudaginn

Á fimmtudaginn næstkomandi verður háð rimma í fimmgangi í Meistaradeild VÍS. Mikil eftirvænting ríkir fyrir þessa vinsælu grein og má ætla að keppendur mæti með sína allra bestu fáka. Í fyrra lauk fimmgangskeppninni með sigri Þorvaldar Árna og Þokka frá Kýrholti eftir bráðabana við Viðar Ingólfsson og Riddara frá Krossi.

Þriðji varð Sigurður Sigurðarson og Skugga-Baldur frá Litla-Dal. Það er ekki ólíklegt að við fáum að sjá þessa þrjá berjast um sigurinn á ný með þessa sömu hesta, sem eru jú árinu eldri og reyndari en síðast. Ekki má heldur vanmeta aðra knapa sem eiga eflaust ekkert eftir að gefa eftir og verður spennandi að sjá hestakost komandi sumars á alhliða vængnum.

Keppnin hefst klukkan 19.30 í Ölfushöll, ráslisti verður birtur fyrir hádegi á miðvikudag og skulu knapar vera búnir að láta vita um keppnishesta ekki síðar en á þriðjudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×