Innlent

Innbrotsþjófar á Akureyri

MYND/Getty Images

Lögreglan á Akureyri handtók karlmann á veitingastað í bænum aðfararnótt laugardags. Maðurinn var að tína veigar af barnum þegar lögreglan kom að. Hann gerði misheppnaða flóttatilraun og gisti fangageymslur lögreglu um nóttina.

Við húsleit á heimili mannsins daginn eftir kom í ljós að hann var búinn að útbúa gróðurhús í einu herberginu til kannabisræktunar. Þrjátíu blómapottar og búnaður hafði verið settur upp fyrir ræktunina.

Átján ára piltur var einnig handtekinn á laugardag á Akureyri vegna gruns um innbrot í bænum á síðustu dögum. Við leit heima hjá honum fundust munir sem stolið hafði verið í innbrotum. Pilturinn játaði að hafa brotist inn í fimm fyrirtæki og verslanir í bænum.

Þá voru tveir karlmenn handteknir um helgina með fíkniefni í fórum sínum. Annar var handtekinn í miðbænum með kókaín, en hinn á veitingastað með kókaín eða amfetamín. Málin teljast upplýst og mönnunum var sleppt að loknum yfirheyrslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×