Innlent

Stefnuleysi og óvissa við Naustavog

Frá svæði Snarfara við Naustavog.
Frá svæði Snarfara við Naustavog. MYND/Heiða Helgadóttir

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi Samfylkingarinnar segir stefnuleysi og óvissu ríkja um heildarskipulag Elliðavogs. Í vikunni undirritaði borgarstjóri leigusamning við Snarfara um lóð félagsins við Naustavog til 30 ára. Dagur telur svo langan samning hafa verið ótímabæran.

Samningurinn dróst nokkuð á langinn vegna óvissu með lagningu Sundabrautar og hugmynda um heildarskipulag Elliðvogssvæðisins. Með honum er ljóst að fyrirhuguð byggð er nú í óvissu, segir í yfirlýsingu frá Snarfara. Fyrirhugað var að reisa nokkuð háreista byggð inn á lóð Snarfara.

Dagur B. Eggertsson fyrrverandi formaður Skipulagsráðs kynnti tillögur um byggðina á síðasta ári. Hann telur ótímabært að framlengja samninga á svæðinu. Stefnuleysi ríki um uppbyggingu þar og óvissa meðal íbúa um framtíð þess, sérstaklega íbúa Bryggjuhverfis.

Dagur segir hugmyndir hafa verið um að auka aðstöðu fyrir smábáta og skemmtiskútur, þó staðsetning fyrir þá starfsemi hafi verið á reiki. Bryggjuhverfið geti stækkað og skemmtilegra væri að hafa bátabryggju nær því.

Þess vegna hafi verið ótímabært að skrifa undir svo langan samning við Snarfara um núverandi staðsetningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×