Fótbolti

Messi skoraði þrennu og jafnaði á síðustu mínútu

Lionel Messi fagnar einu af mörkum sínum í kvöld.
Lionel Messi fagnar einu af mörkum sínum í kvöld. MYND/Getty

Lionel Messi var hetja Barcelona í leik liðsins gegn Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld, en hann skoraði öll þrjú mörk liðsins í 3-3 jafntefli, það síðasta þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma. Leikurinn var stórkostleg skemmtun en Eiður Smári Guðjohnsen lék síðustu 10 mínútur leiksins.

Staðan í hálfleik var jöfn 2-2, en Ruud van Nistelrooy hjá Real og Messi hjá Barcelona skoruðu tvívegis fyrir sín lið. Barcelona varð fyrir áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar varnarmaðurinn Oleguer var rekinn af velli eftir að hafa fengið að líta sitt annað gula spjald.

Einum færri átti Barcelona í talsverðum erfiðleikum í síðari hálfleik og Real Madrid nýtti sér liðsmuninn þegar varmaðurinn Sergio Ramos kom þeim yfir á 72. mínútu leiksins.

Heimamenn í Barcelona pressuðu stíft undir lok leiksins, sérstaklega eftir tilkomu Eiðs í framlínuna síðustu 10 mínúturnar, og náði Messi að skora sitt þriðja mark og kóróna þannig stórleik sinn.

Jafnteflið tryggir Barcelona toppsæti deildarinnar um stundarsakir en liðið er með betri markatölu en Sevilla. Bæði lið hafa hlotið 50 stig en Sevilla á leik til góða á morgun. Valencia er í þriðja sæti með 46 stig og Real í því fjórða með 45 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×