Fótbolti

Roberto Carlos hættir með Real Madríd í vor

Roberto Carlos er hér ásamt félaga sínum í vörn Real, Sergio Ramos.
Roberto Carlos er hér ásamt félaga sínum í vörn Real, Sergio Ramos. MYND/AP

Brasilíski knattspyrnumaðurnn Roberto Carlos hyggst hætta að leika með spænska liðinu Real Madrid í vor eftir ellefu ára dvöl hjá konungsliðinu. Þetta kemur fram í viðtali við hann í spænska íþróttadagblaðinu Marca í dag.

Samningur Carlosar rennur út í sumar og hyggst hann ekki endurnýja hann enda kominn á seinni hluta ferils síns, 33 ára gamall. Gengi Real Madríd hefur sitt að segja því haft er eftir Carlos að hann hafi þurft að taka þessa ákvörðun eftir þrjú ár í röð án nokkurra titla, en Real Madríd er eitt sigursælasta lið Evrópu og þar á bæ telst knattspynutímabilið lélegt ef enginn titill vinnst.

Roberto Carlos gekk til liðs við Real Madrid árið 1996 frá ítalska liðinu Inter og hefur síðan unnið þrjá Evrópumeistaratitla og tvo meistaratitla á Spáni með félaginu auk tveggja heimsmeistaratitla með brasilíska landsliðinu. Carlos hefur spilað fleiri leiki fyrir Real Madríd en nokkur annar erlendur leikmaður og skorað 45 mörk fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×