Erlent

Sprengjuárás á Indlandi rannsökuð

Ráðamenn í Indlandi og Pakistan hafa fordæmt sprengjuárás á farþegalest í Indlandi í gærkvöldi. Segja þeir ætlun ódæðismannanna hafi verið að raska friðarviðræðum landanna og það takist ekki. Minnst 66 týndu lífi í árásinni.

Hraðlestin, sem kennd er við vináttu, var á leið til Pakistan og farþegar flestir þaðan. Lestin tengir Nýju Delí á Indlandi við Lahore í Norður-Pakistan. Eldur kviknaði í tveimur vögnum í gærkvöldi þegar tvær sprengjur sprungu. Lestin var þá á ferð nærri þorpinu Deewana um 80 kílómetra norður af Nýju Delí.

Minnst 66 týndu lífi í árásinni eða létust af sárum sínum og fjölmargir liggja þungt haldnir á sjúkrahúsi. Við leit í lestinni fundust tvær ósprungnar sprengjur. Örvilnaðir ættingjar farþega hafa beðið fram eftir degi eftir upplýsingum um ástvini sem voru um borð.

Indverjar rannsaka nú ódæðið. Engin samtök hafa lýst ábyrgð á því á hendur sér en samkvæmt indverskum fjölmiðlum hefur einn maður verið handtekinn. Stjórnmálaskýrendur segja allt benda til þess að aðskilnaðarsinnar í Kasmírhéraði hafi verið að verki.

Ráðamenn á Indlandi og í Pakistan segja það hafa verið ætlun ódæðismannanna að raska friðarviðræðum milli landanna en þeim verði ekki kápan úr því klæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×