Erlent

Enn eitt heiðursmorð í Danmörku

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. MYND/Teamevent

Danskur saksóknari hefur krafist þyngri refsingar yfir pakistanskri fjölskyldu sem myrti nítján ára gamla stúlku vegna þess að hún hafði gifst manni sem fjölskyldan sætti sig ekki við. Það var bróðir stúlkunnar sem skaut hana til bana, að skipun föðurins. Eiginmaður hennar særðist mikið, en lifði tilræðið af.

Stúlkan hét Ghazala og svo virðist sem öll fjölskyldan hafi tekið þátt í að hafa upp á henni og eiginmanni hennar til þess að myrða þau. Það hafðist loks upp á þeim í Slagelse og þar skaut bróðirinn systur sína til bana og særði eiginmanninn.

Í undirrétti var faðirinn dæmdur í lífstíðar fangelsi fyrir að fyrirskipa morðið og bróðirinn í sextán ára fangelsi fyrir að fremja það. Sjö aðrir fengu fangelsisdóma frá átta árum upp í sextán. Málið er nú fyrir hæstarétti í Danmörku og þar krefst saksóknari þyngri refsingar yfir þeim sem fengu stystu fangelsisdómana.

Yfirvöld í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, hafa miklar áhyggjur af svokölluðum heiðursmorðum, sem þykja orðið óhugnanlega tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×