Fótbolti

Eto´o hraunar yfir Rijkaard og Ronaldinho

NordicPhotos/GettyImages

Kamerúninn Samuel Eto´o hjá Barcelona segir að Frank Rijkaard og Ronaldinho séu vondir menn í kjölfar þess að þeir gagnrýndu ákvörðun hans um að neita að fara inná í leik gegn Santander um síðustu helgi. Eto´o segist vera fastur í miðju stríði innan liðsins.

Eto´o er nýstiginn upp úr erfiðum hnémeiðslum en neitaði að fara inná sem varamaður þegar fimm mínútur voru eftir af leik Barcelona og Santander um síðustu helgi. Bæði Frank Rijkaard þjálfari og félagi hans Ronaldinho gagnrýndu þessa ákvörðun framherjans. Eto´o æfði einn í gær og í dag lét hann heldur betur í sér heyra þegar hann var spurður út í stöðu mála.

"Að segja blaðamönnum að ég vilji ekki spila er verk vondra manna. Þeir geta sagt hvað þeir vilja, en ég hef alltaf staðið undir væntingum félaga minna í liðinu og staðið við mitt. Ef þið viljið vita hvað kom í raun og veru fyrir, skulið þið spyrja Frank Rijkaard," sagði Eto´o og lét í það skína að eitthvað gruggugt væri í gangi í herbúðum liðsins.

"Ég stend í stríði tveggja fylkinga, en þetta stríð kemur mér ekki við, " sagði Eto´o og vísaði til manna innan félagsins sem eru ekki á sömu línu og forsetinn Joan Laporta. "Égþarf ekki að útskýra eitt eða neitt fyrir neinum, en félagið skiptist í tvennt og það er ég sem þarf að taka við skömmunum. Ég mun ekki útskýra þetta nánar nema félagið láti mig gera það," sagði Eto´o.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×