Fótbolti

Beckham verður með Real á morgun

David Beckham er kominn inn í myndina hjá Real Madrid á ný.
David Beckham er kominn inn í myndina hjá Real Madrid á ný. MYND/Getty
David Beckham hefur verið kallaður aftur inn í leikmannahóp Real Madrid fyrir leikinn gegn Real Sociedad í spænsku úrvalsdeildinni á morgun. Gengi Real hefur ekki verið upp á marga fiska síðustu vikur og hefur þjálfarinn Fabio Capello nú látið undan gríðarlegum þrýstingi um að gefa Beckham tækifæri á ný.

Beckham hafði lýst því yfir í morgun að hann þráði ekkert heitar en að spila á ný fyrir Real Madrid og hjálpa liði sínu að vinna sig úr mótlætinu sem það hefur mátt þola síðustu vikur. Beckham segist líða illa vegna ástandsins.

"Mér líður illa. Mig langar að hjálpa liðinu og þrái ekkert heitar en að spila," sagði Beckham í samtali við spænska dagblaðið Marca í gær.

Fyrr í vikunni höfðu Raul og Guti, leikmenn Real, lýst yfir stuðningi við Beckham og skorað á þjálfara sinn Fabio Capello að taka Beckham úr kuldanum og gefa honum tækifæri til að spila, en sem kunnugt er hafði Capello lýst því yfir að Beckham hefði spilað sinn síðasta leik í kjölfarið á að hafa skrifað undir samning við LA Galaxy í Bandaríkjunum.

Beckham sagði við Marca að hann væri þeim Guti og Raul afar þakklátur. "Það var fallegt af þeim að gera þetta," sagði Beckham á hlaupum, en hann vill tjá sig sem minnst við spænska fjölmiðla þrátt fyrir gríðarlegan ágang þeirra.

Líklegt er að Beckham þurfi að sætta sig við að byrja á varamannabekknum í leiknum á morgun þar sem honum skortir líklega nokkuð upp á leikformið.

Leikur Real Sociedad og Real Madrid verður í beinni útsendingu á Sýn á morgun og hefst kl. 19:00.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×