Erlent

Wal-Mart í slæmum málum

Hópur kvenna sem tekur þátt í málsókninni gegn Wal-Mart.
Hópur kvenna sem tekur þátt í málsókninni gegn Wal-Mart. MYND/AP

Áfrýjunardómstóll í Kaliforníu fylki í Bandaríkjunum samþykkti í dag að hópur kvenna sem ætlar í mál við Wal-Mart verslunarkeðjuna fengi stöðu hópmálsóknar. Það þýðir að allar konur sem unnu hjá Wal-Mart frá árinu 1998 og telja að mismunað hafi verið gegn sér í starfi á einn eða annan hátt gætu orðið aðilar að málsókninni.

Konurnar saka Wal-Mart, sem er heimsins stærsti smásöluaðili, um að mismuna þeim í launum og stöðum samanborið við karlmenn. Rúmlega ein og hálf milljón kvenna gætu tekið þátt í hópmálsókninni sem myndi gera hana þá stærstu í sögu Bandaríkjanna.

Wal-Mart segir að þar sem hver og ein búð hafi töluvert svigrúm sé í raun ekki hægt að fara í mál við þá.  Wal-Mart gæti þurft að borga milljarða dollara í skaðabætur ef það tapar málinu. Rétt í þessu var tilkynnt að þeir ætli sér að áfrýja niðurstöðu dómstólsins til hæstaréttar Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×