Fótbolti

Hvað er málið með Materazzi?

Gennaro Delvecchio fær að líta rauða spjaldið í leiknum í gærkvöldi.
Gennaro Delvecchio fær að líta rauða spjaldið í leiknum í gærkvöldi. MYND/AFP

Marco Materazzi, ítalski varnarmaðurinn hjá Inter Milan, hefur enn einu komið sér í sviðsljósið en í gærkvöldi varð hann þess valdur að Gennaro Delvecchio, leikmaður Sampdoria, fékk að líta rauða spjaldið í viðureign liðanna. Atvikið þykir minna óþarflega mikið á uppákomu hans og Zinedine Zidane á HM síðastliðið sumar.

Delvecchio vandar Materazzi ekki kveðjurnar en það var á 7. mínútu leiksins í gærkvöldi sem að hann reyndi að ná til boltans áður en hann komst í hendurnar á Julio Cesar, markverði Inter.

Svo virtist sem að Delvecchio hefði sparkað lítillega í Cesar og við það hljóp Materazzi að leikmanninum og hrópaði að honum ókvæðisorðum. Delvecchio otaði hausnum að andliti Materazzi sem síðan féll með tilþrifum í jörðina líkt og hann hefði verið skallaður alvarlega. Delvecchio fékk umsvifalaust að líta rauða spjaldið.

Eftir leikinn sakaði Delvecchio ítalska landsliðsmanninn um að hafa ögrað sér. "Það sem ég gerði var rangt en ég brást svona við ljótum orðum Materazzi. Hann sakaði mig um að vilja meiða aðra leikmenn sem er auðvitað alrangt. Þið ættuð að lesa varir hans og sjá hvað hann sagði við mig," sagði Delvecchio eftir leikinn.

Materazzi sá málið frá annari hlið, eins og honum er venja til. "Ég gerði ekkert rangt. Ég sagði honum bara að hætta því sem hann var að gera," sagði Materazzi. "Áður en ég vissi af hafði hann skallað mig. Ég fékk skurð á vörina og það blæddi úr mér," bætti hann við.

Hægt er að sjá myndband af atvikinu á síðunni kvikmynd.is eða með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×