Körfubolti

Finley skoraði flautukörfu gegn LA Lakers

LeBron James skoraði 30 stig í nótt en það dugði ekki til gegn gríðarlega öflugu liði Phoenix.
LeBron James skoraði 30 stig í nótt en það dugði ekki til gegn gríðarlega öflugu liði Phoenix. MYND/Getty

Michael Finley skoraði þriggja-stiga körfu og tryggði San Antonio 96-94 sigur á LA Lakers þegar 1,3 sekúndur voru eftir í leik liðanna í NBA-deildinni í nótt. Phoenix gefur ekkert eftir og vann sinn 17. sigur í röð.

"Þetta var í raun bara venjulegt skot fyrir mig. Eins og alltaf létum við Tim Duncan fá boltann og létum hann reyna að skora en þegar hann er tvídekkaður á hann að gefa boltann út á lausa manninn. Svo vildi til að það var ég að þessu sinni og sem betur fer hitti ég," sagði Finley hógvær eftir leikinn.

Finley skoraði 17 stig í leiknum en stigahæstir voru Tim Duncan og Manu Ginobili með 21 stig. Kobe Bryant skoraði 31 stig fyrir LA Lakers.

Phoenix átti í litlum erfiðleikum með LeBron James og félaga í Cleveland og vann öruggan 15 stiga sigur, 115-100. Steve Nash var frábær hjá Phoenix að vanda, skoraði 23 stig og gaf 15 stoðsendingar. LeBron James skoraði 30 stig fyrir Cleveland. Þetta var 17. sigurleikur Pheonix í röð, sem er lengsta sigurhrina nokkurs liðs í sjö ár.

"Eins og Phoenix eru að spila um þessar mundir eru þeir einfaldlega ósigrandi," viðurkenndi LeBron James eftir leikinn.

Washington vann Boston, 105-91. Antawn Jamison skoraði 34 stig fyrir en Delonte West var atkvæðamestur hjá Boston og skoraði 22 stig.

Ray Allen náði sér ekki á strik fyrir Seattle gegn LA Clippers í nótt og skoraði aðeins 15 stig. Þar munaði um minna því Clippers vann leikinn örugglega, 98-76. Elton Brand skoraði mest hjá Clippers, eða 22 stig.

Milwaukee marði sigur á New York á heimavelli sínum, 107-105. Það var helst fyrir tilstilli Mo Williams sem að Milwaukee vann sigur en Williams skoraði 30 stig og gaf 10 stoðsendingar. Jamal Crawford var með 26 stig fyrir New York.

Þá vann Detroit góðan sigur á Indiana, 95-87. Jermaine O´Neal skoraði 26 stig og hirti 12 fráköst fyrir gestina en Richard Hamilton skoraði 21 stig fyrir Detroit. Chris Webber hirti 13 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×