Fótbolti

Luku leik með sjö leikmönnum

Getty Images
Fjórir leikmenn Osasuna fengu að líta rauða spjaldið þegar liðið heimsótti Atletico Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi. Osasuna er eina liðið í spænsku efstu deildinni sem lýkur leik með 7 leikmenn inni á vellinum á síðustu 10 keppnistímabilum.

Andrúmsloftið var slæmt á Vicente Calderon vellinum í Madrid í gærkvöldi en snemma leiks varð Kamerúnski sóknarmaðurinn hjá Osasuna, Pierre Webo fyrir barðinu á kynþáttaníði stuðningsmanna Atletico.

Lítið var um knattspyrnu í fyrri hálfleik og það var 12 mínútum fyrir leikslok að fyrsta rauða spjaldið fór á loft. Carlos Cuellar varnarmanni Osasuna var vikið af velli fyrir að brjóta á Fernando Torres inni í vítateig. Torres tók vítaspyrnuna sjálfur en skaut í stöngina. En á 84. mínútu skoraði Ze Castro eina mark leiksins og sigurmark Atletico. Eftir það leystist leikurinn upp í farsa. Roberto Soldado hjá Osasuna fékk að líta rauða spjaldið fyrir að reka olnbogann í andlit Ze Castro og markvörðurinn Ricardo fékk að líta sitt annað gula spjald í viðtbótartíma og leikmenn Osasuna orðnir átta talsins.

Það var svo nokkrum sekúndum fyrir lokaflautið að Raúl García varð fjórði leikmaður Osasuna til að fá rauða spjaldið þegar hann veitti Grikkjanum Giourkas Seitaridis olnbogaskot. Atletico tyllti sér í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum þar sem liðið er með 35 stig, jafnmörg og Barcelona og Real Madrid sem eiga leiki til góða í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×