Fótbolti

Stuðningsmenn Getafe enn til vandræða

Flores er afar ósáttur við stuðningsmenn Getafe
Flores er afar ósáttur við stuðningsmenn Getafe NordicPhotos/GettyImages

Quique Sanchez Flores, þjálfari Valencia, er æfur yfir stuðningsmönnum Getafe eftir að hópur þeirra gerði sig sekan um kynþáttaníð í garð varnarmannsins Miguel í viðureign liðanna í bikarkeppninni á Spáni. Þetta er langt frá því að vera í fyrsta skipti sem stuðningsmenn Getafe eru gagnrýndir fyrir kynþáttaníð.

"Stuðningsmenn Getafe eru í flestum tilvikum mjög góðir, en innan þeirra raða eru nokkrir hálfvitar eins og kannski hjá flestum félögum. Þessir hálfvitar láta því miður of mikið í sér heyra," sagði Flores.

Fyrir tveimur árum var Getafe sektað um 600 evrur vegna kynþáttaníðs stuðningsmanna liðsins sem beindist að kamerúnska framherjanum Samuel Eto´o hjá Barcelona - og hann var svo svívirtur aftur á síðustu leiktíð og var þá rétt búinn að ganga af velli í miðjum leik. Þá var sektin 3000 evrur, sem er auðvitað ekki meira en stöðumælasekt fyrir knattspyrnufélag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×