Innlent

Heitir á verslunina að lækka matarverð

Forsætisráðherra heitir á heildsala og smásala að standa með stjórnvöldum í lækkun matarverðs. Hann telur að verð á matvælum geti lækkað um allt að 15 prósentum, þegar virðisaukaskattur og vörugjöld lækka á matvælum í marsmánuði.

Matsfyrirtækið Standard & Poor's lækkaði í gær lánshæfiseinkunn ríkissjóðs og vísaði til þensluhvetjandi ríkisfjármála í aðdraganda kosninganna. Forsætisráðherra segir ástæðuna fyrir því að matarverðslækkanir komi ekki til framkvæmda fyrr en rúmum tveimur mánuðum fyrir kosningar, ekki vera kosningarnar, heldur hafi tímasetningin verið undirbúin í fjögur ár með tilliti til þess hvar við yrðum stödd í hagsveiflunni. "Það er farið að hægja hér mjög á í hagkerfinu og þess vegna er þessi tímasetning hugsuð með tilliti til þess að hún komi ekki ofan í mikla þenslu, heldur þvert á móti. Þannig er þetta hugsað og þess vegna hefur þetta beðið allt kjörtímabilið," segir Geir H. Haarde.

Aðspurður um efasemdir talsmanns neytenda um útreikninga stjórnvalda vegna lækkunar matarverðs sagði forsætisráðherra að honum hefði verið svarað í gær. "En menn verða að hafa það í huga að verðlag á Íslandi er frjálst. Það eru þeir sem ákveða verðið sem á endanum hafa mest að segja um það hvert það er."

Aðspurður hvort hann óttist að heildsalar og smásalar taki verðlækkunina af fólki, sagðist Geir heita á þá og höfða til ábyrgðarkenndar þeirra um að standa með stjórnvöldum í þessu máli.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×