Körfubolti

Gilbert Arenas skoraði 60 stig gegn Lakers

Gilbert Arenas skoraði 60 stig í Los Angeles í nótt
Gilbert Arenas skoraði 60 stig í Los Angeles í nótt NordicPhotos/GettyImages

Gilbert Arenas fór hamförum með liði Washington Wizards í nótt þegar liðið sigraði LA Lakers 147-141 í framlengdum leik í Staples Center í Los Angeles. Arenas skoraði 60 stig fyrir Washington og var lykilmaðurinn á bak við góðan sigur liðsins í frábærum leik sem sýndur var beint á NBA TV á Fjölvarpinu.

60 stig Arenas er félagsmet hjá Washington, persónulegt met hjá leikmanninum og það mesta sem einn maður hefur skorað í einum leik í vetur. Þess má geta að aðeins goðsögnin Wilt Chamberlain hefur skorað fleiri stig í leik gegn LA Lakers í sögu félagsins. Caron Butler skoraði 27 stig fyrir Washington og Antawn Jamison skoraði 25 stig og hirti 13 fráköst.

Kobe Bryant var atkvæðamestur í liði Lakers með 45 stig, 10 stoðsendingar og 8 fráköst, en liðið tók 44 þriggja stiga skot í leiknum sem er félagsmet. Vladimir Radmanovic átti sinn besta leik til þessa með Lakers og skoraði 27 stig og Luke Walton skoraði 15 stig og gaf 11 stoðsendingar.

Toronto lagði Golden State 120-115 þar sem Mo Peterson skoraði 23 stig fyrir Toronto en Monta Ellis skoraði 28 fyrir Golden State.

Utah vann fyrsta sigur sinn á Indiana í fjögur ár 104-94. Carlos Boozer skoraði 18 stig og hirti 11 fráköst fyrir Utah en Jermaine O´Neal skoraði 31 stig fyrir Indiana.

Houston lagði LA Clippers 108-103. Yao Ming skoraði 32 stig og hirti 10 fráköst fyrir Houston en Shaun Livingston skoraði 21 stig fyrir Clippers.

Loks vann Detroit sigur á Seattle 97-93. Rip Hamilton skoraði 24 stig fyrir Detroit en Rashard Lewis skoraði 25 stig og hirti 11 fráköst fyrir Seattle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×