Innlent

Fangageymslur fullar í Reykjavík

Fangageymslur lögreglunnar í Reykjavík voru fullar í morgun eftir erilsama en þó stórslysalausa nótt. Að sögn lögreglu var töluvert um ölvun í miðborginni. Lítið fór fyrir jólaskapinu nú þegar vika er til hátíðar ljóss og friðar. Erfiðlega gekk að tjónka við menn og fólk fært í fangageymslur þar sem það svaf úr sér áfengisvímu.

Rólegt mun hafa verið annars staðar á landinu, utan þess að tvær stúlkur, sextán og sautján ára gamlar, voru handteknar í Grindavík. Þær eru grunaðar um að hafa tekið bifreið ófrjálsri hendi og ekið henni á steinhleðsluvegg við skemmtistaðinn Festi. Þær sluppu án teljandi meiðsla en bifreiðin er mikið skemmd, sem og veggurinn. Stúlkurnar gistu fangageymslur lögreglunnar í Keflavík í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×