Innlent

Full samstaða stjórnarliða um RÚV

Full samstaða er meðal stjórnarliða um RÚV-frumvarpið segir menntamálaráðherra og átelur menn fyrir að setja frestun lokaumræðunnar í annarlegt ljós.

Þriðju umræðu um Ríkisútvarpið ohf. hefur verið frestað fram yfir áramót en þetta er í þriðja sinn sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur árangurslaust reynt að koma frumvarpi um RÚV í gegnum þingið. Aðspurð segir hún stjórnarmeirihlutann hafa treyst sér fyllilega til að koma frumvarpinu í gegn fyrir jól. "En menn mátu það einfaldlega þannig að það væru önnur mál sem væri líka brýnt að fá í gegn fyrir áramót."

En voru það ekki vonbrigði fyrir ráðherra í ljósi þess að þetta er þriðja atrenna hennar við lög um Ríkisútvarpið? "Menn eru að reyna að setja þetta upp í alls konar annarlegt ljós. Þingið starfar bæði fyrir og eftir áramót. Og auðvitað setur hver ráðherra sér það markmið að klára mál sem fyrst. En það er alveg ljóst að það hefur ekkert mál verið jafn vel rætt og er jafn vel þekkt þannig að menn ættu að hafa auðveldlega haft tækifæri til að taka afstöðu til málsins. Þannig að ég bara geri ráð fyrir því að við byrjum 15. janúar og þá hefst þriðja umræða Ríkisútvarpsins."

En eru Framsóknarmenn að draga lappirnar í þessu máli? "Alls ekki. Framsóknarmenn hafa staðið sem klettur við hlið mér í öllu þessu máli."

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×