Fótbolti

Leikmenn Bremen óttast ekki Barcelona

Leikmenn Bremen á æfingu á Nou Camp í dag.
Leikmenn Bremen á æfingu á Nou Camp í dag. MYND/Getty Images

Þýski landsliðsmaðurinn Thorsten Frings og leikmaður Werder Bremen segir að leikmenn liðsins óttist Evrópumeistara Barcelona ekki neitt og að liðið muni spila til sigurs í viðureign liðanna í Meistaradeildinni á morgun. Lið Bremen kom til Barcelona í morgun og æfði á Nou Camp í morgun.

"Við berum miklum virðinga fyrir leikmönnum Barcelona en við óttumst þá ekki," segir Frings. Bremen er á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar og mæta til leiks á Spáni fullir sjálfstraust eftir 3-1 sigur um helgina. Bremen nægir jafntefli gegn Barcelona til að komast áfram í keppninni.

"Við gerum okkur grein fyrir því að pláss í 16-liða úrslitum er í húfi. Pressan er öll á Barcelona þar sem þeir eru meistarar og á heimavelli. Enginn býst við því að við náum úrslitum, nema við sjálfir. Ég hef trú á því að við eigum eftir að koma fólki á óvart," segir Frings.

Þjálfarinn Thomas Schaaf tekur í sama streng. "Við höfum engu að tapa. Við verðum bara að spila okkar leik og njóta þess að fá þetta tækifæri. Ég er mjög spenntur fyrir leikinn en kvíðinn er ég ekki," sagði Schaaf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×