Innlent

250 hafa kosið í forvali VG

Forval Vinstri grænna, í þremur kjördæmum höfuðborgarsvæðisins, fór vel af stað í morgun að sögn framkvæmdastjóra flokksins, en með utankjörfundaratkvæðum hafa um 250 manns kosið. Fyrstu tölur verða birtar upp úr klukkan tíu í kvöld.

Þrjátíu gefa kost á sér í forvalinu í þessum þremur fjölmennu kjördæmum og hófst kosning klukkan tíu í morgun. Á kjörskrá eru 1796 eða þeir sem skráðir voru í flokkinn fyrir síðasta laugardag. Um tíundi hluti flokksfélaga kaus utan kjörfundar. Kjósendur þurfa að lámarki að velja þrjá í fyrsta sæti, þrjá í annað sæti og þrjá í þriðja sæti en hafa svo val um að setja þrjá í fjórða sæti. Þeim hlutskörpustu verður svo raðað í kjördæmi eftir kostninguna en við röðunina verður meðal annars tekið mið af búsetu fólksins.

Kosið er á þremur stöðum, á Suðurgötu 3 í Reykjavík, Strandgötu 11 í Hafnarfirði og í Hlégarði í Mosfellsbæ en kjörstöðum verður lokað klukkan tíu í kvöld og er stefnt að því að úrslit verði kynnt upp úr miðnætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×