Innlent

Þróunarlönd aðstoðuð á sviði landgræðslu og jarðvegsverndar

MYND/GVA

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að stofna til þróunarverkefnis á sviði jarðvegsbóta og aðstoða þannig þróunarlönd á sviði landgræðslu og jarðvegsverndar.

Valgerður tilkynnti þessa ákvörðun sína á ríkisstjórnarfundi í morgun og er verkefnið framlag til baráttunnar gegn eyðimerkurmyndun í heiminum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og jafnframt liður í aðgerðum þjóða heims til að draga úr loftslagsbreytingum.

Verkefnið verður í höndum Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins og segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að íslenskar aðstæður henti óvenjulega vel til samstarfs við þróunarlönd um fræðslu og starfsþjálfun á sviði landgræðslu og jarðvegsverndar því jarðvegseyðing á Íslandi eigi sér hliðstæðu í þróunarlöndunum. Hér á landi hafi verið unnið þrekvirki í að stöðva jarðvegsrof og endurreisa landgæði, en á næsta ári verða 100 ár liðin frá setningu laga um landgræðslu hér á landi.

Bent er á í tilkynningunni að hnignun vistkerfa, eyðing gróðurs, jarðvegseyðing og myndun eyðimarka séu meðal alvarlegustu umhverfisvandamála heimsins. Þau eigi mikinn þátt í loftslagsbreytingum, þverrandi líffræðilegum fjölbreytileika, vaxandi fátækt í mörgum löndum og skertu fæðuöryggi jarðarbúa.

Ráðgert er að verkefnið hefjist þegar næsta sumar með námsdvöl valins hóps fagfólks frá þróunarlöndum á sviði landgræðslu og jarðvegsverndar við stofnanir hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×