Innlent

Samstaða um að almennir lögreglumenn verði áfram óvopnaðir

MYND/GVA

Samstaða var um það í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag að almennir lögreglumenn hér á landi skyldu áfram vera óvopnaðir. Það var Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem var málshefjandi og vakti athygli á því að starfshópur á vegum Ríkislögreglustjóra hefði lagt til í skýrslu aukna vopnvæðingu hjá lögreglunni.

Benti hún á að á hverjum degi ækju tveir sérsveitarmenn um borgina með vopnabúnað í bílnum. Spurði hún dómsmálaráðherra hvort til stæði að vopnbúa lögregluna frekar og benti hún á að ef lögreglan vopnbyggist myndu glæpamenn gera það líka.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra svaraði því til að hér á landi hefði lengi verið sú stefna að lögreglumenn í almennum störfum bæru ekki vopn og að hann sæi ekki ástæðu til þess að breyta því. Hins vegar þyrfti áfram að leggja áherslu á uppbyggingu sérsveitarinnar eins og gert hefði verið undanfarin ár. Benti hann á að nú væru 45 sérsveitarmenn innan lögreglunnar, þar af 36 í Reykjavík. Þá lagði Björn áherslu á að tryggja þyrfti betur vernd lögreglumanna í starfi og að því væri unnið nú.

Þeir þingmenn sem tóku til máls voru sammála um það mikilvægt væri að hin almenna lögregla væri óvopnuð áfram og vonandi þyrfti ekki til þess að koma að lögregla þyrfti að vopnast vegna aukinnar hörku glæpamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×